Viðskipti innlent

Íslendingar flytja mikið út til Sádi-Arabíu

Vöruútflutningur frá Íslandi til Sádi-Arabíu var þrisvar sinnum meiri en frá Sádi-Arabíu til Íslands árið 2005. Stjórnarformaður verslunarráðs Sádi-Arabíu segir löndin tvö hafa myndað með sér traust viðskiptasamband, að sögn fréttastofunnar Arab News.

Samkvæmt stjórnarformanninum, sem ekki er nefndur á nafn, nam heildarverðmæti innflutnings, þjónustu og fleiri þáttum frá Íslandi til Sádi-Arabíu 76,5 milljónum bandaríkjadala eða rúmum 5,5 milljörðum króna í hitteðfyrra. Á sama tíma voru vörur fluttar frá landinu til Íslands fyrir jafnvirði 26,4 milljóna dala eða rétt rúmlega 1,9 milljarða íslenskra króna.

Arabíska fréttastofan segir Ísland hafa verið eitt af fátækustu löndum í Evrópu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar en hafi í kjölfar afnáms viðskiptahafta orðið eitt af þeim auðugust.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands nam verðmæti útflutnings héðan til Sádi-Arabíu 4,5 milljónum króna árið árið 2005 sem er mjög lítið samanborið við síðustu tíu árin á undan. Árið 2002 sker sig hins vegar úr enn þá nam verðmæti útflutnings til Sádi-Arabíu 68,8 milljónum króna.

Til samanburðar nam verðmæti innnflutnings frá Sádi-Arabíu í hitteðfyrra 25,4 milljónum króna sem er með því mesta síðastliðinn áratug.

Gera má því ráð fyrir að í tölum sádi-arabíska verslunarráðsins sé ýmis aðkeypt þjónusta, svo sem leiga á flugvélum fyrir pílagrímaflug og fleira sem ekki fellur undir hagvísa hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×