Viðskipti innlent

Atvinnuleysi jókst lítillega á milli mánaða

Atvinnuleysi í desember hækkaði lítillega frá fyrri mánuði eða úr 1,1 prósent í 1,2 prósent, samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar. Í desember voru að meðaltali 1.879 manns á atvinnuleysisskrá sem er fjölgun um 130 manns á milli mánaða.

Greiningardeild Kaupþings segir í Hálfffimmfréttum sínum í dag að langtímaatvinnulausir, þeir sem hafi verið atvinnulausir í 6 mánuði eða lengur, hafi verið 566 í síðasta mánuði 2006 eða sem nemur 27 prósentum af heildarfjölda atvinnulausra. Það er 13 prósenta fjölgun á milli mánaða.

Deildin bendir á að þótt atvinnuleysi hafi aukist lítillega þá sé atvinnuleysi enn í sögulegu lágmarki og ljóst miðað við þessar mælingar að enn sé mikil þensla til staðar á vinnumarkaði.

Kaupþing hefur eftir Vinnumálastofnun að metinnflutningur hafi verið á erlendu vinnuafli í fyrra en rúmlega 17.000 erlendir ríkisborgarar starfa á íslenskum vinnumarkaði. Stór hluti þeirra hefur starfað við stóriðjuframkvæmdir og megi gera ráð fyrir að einhverjir þeirra snúi nú til heimalands síns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×