Innlent

Lega álvers í Helguvík ákveðin

MYND/Vísir

Sveitarfélögin Reykjanesbær og Garður hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem þau segja frá því að sátt hafi náðst um legu lóðar fyrirhugaðs álvers í Helguvík.

Fyrstu áætlunir um staðsetningu álversins gerðu ráð fyrir því að það yrði allt á landi Reykjanesbæjar en eftir brottför varnarliðsins opnaðist sá möguleiki að hafa hluta þess innan sveitarfélagsins Garðs. Ker- og steypuskálar verða því í landi Garðs en súrálsgeymar, skrifstofubyggingar og fleiri mannvirki verða á landi Reykjanesbæjar.

Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garðinu, fagnar niðurstöðunni og segir ánægjulegt að sveitarfélögin hafi náð saman um atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Hún sagði enn fremur að þetta hefði verið besti kosturinn í stöðunni en Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, tók undir þá skoðun hennar.

Árni sagði líka að við þetta myndu skapast 1.000 - 1.100 ný, vellaunuð og örugg framtíðarstörf. „Við leggjum afar mikla áherslu á umhverfisþáttinn og Norðurálsmenn eru samstiga okkur í því að hér verði beitt bestu fáanlegu tækni til hreinsunar á útblæstri frá álverinu, vandað verði til útlits og umhverfishönnunar og fylgst grannt með framþróun á sviði umhverfismála." bætti Árni við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×