Körfubolti

10 þúsund fráköst hjá Garnett

Kevin Garnett, leikmaður Minnesota, skorað 32 stig og reif niður 14 fráköst í 109-98 sigri liðs síns á New Jersey í NBA-deildinni í nótt. Garnett hefur nú tekið 10.007 fráköst á ferlinum og er hann 32. leikmaðurinn í sögu deildarinnar sem rýfur 10 þúsund frákasta múrinn. Pheonix vann sinn áttunda leik í röð í nótt.

Auk þess að ná áfanganum merkilega var Garnett maðurinn á bakvið sigur Minnesota í leiknum, en hann skoraði 12 stig í síðasta leikhlutanum. Jason Kidd var bestur hjá New Jersey með 24 stig, 13 stoðsendingar og sex fráköst.

Pheonix vann Orlando, 107-101, en þetta var áttundi sigurleikur liðsins í röð. Boris Diaw var aðeins einu frákasti frá því að ná þrefaldri tvennu en hann tók níu slík og bætti við 19 stigum og 11 stoðsendingum.

Dwyane Wade var magnaður fyrir Miami gegn Utah í nótt en meistararnir frá því í fyrra unnu 119-110 sigur, þann fjórða í röð. Wade skoraði 32 stig, gaf 10 stoðsendingar og stal auk þess sex boltum frá andstæðingum sínum. Carlos Boozer skoraði 29 stig og tók 14 fráköst hjá Utah.

Manu Ginobili skoraði 19 stig og Tim Duncan 18 þegar San Antonio vann auðveldan sigur á Washington á heimavelli sínum, 93-80. Slæm nýting Washington olli því að liðið átti aldrei möguleika á sigri, en skotnýting liðsins utan af velli var aðeins 31% í leiknum.

Tracy McGrady skoraði 37 stig þegar Houston vann sinn fjórða leik í röð - nú gegn Sacramento eftir framlengingu, 115-111. LeBron James var með 28 stig þegar Cleveland lagði LA Clippers 104-92 og þá burstaði Chicago lið Memphis með 45 stiga mun, 111-66. Þess má geta að Memphis skoraði aðeins níu stig í fjórða og síðasta leikhlutanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×