Innlent

Kortleggja fiskdauða í Grundarfirði

Hafrannsóknar-stofnunin vinnur enn að rannsóknum í Grundarfirði eftir fiskdauða í þorskeldi þar. Grunur leikur á að mikið magn af síld í firðinum hafi orsakað súrefnisþurrð en verið er að kortleggja yfir hversu stórt svæði fiskdauðinn náði.

Starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar vinna enn að rannsókn fiskdauða í þorskeldi fyrirtækisins Guðmundar Runólfssonar sem varð í síðustu viku. En fiskdauðinn varð ljós þegar farið var að huga að slátrun tuttugu tonna af þorski sem eftir var í kvíum eldisins. Grundarfjörður var og er enn fullur af síld og grunur um að þetta mikla magn síldar í firðinum hafði orðið til þess að þorskurinn drapst. Þó er önnur kenning um að brennisteinsmengun sé ástæðan.

Ekki hefur viðrað nógu vel til sýnatöku en starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar hófu hana á föstudag og ætluðu að reyna aftur nú seinni partinn í dag. Einhverjar myndir náðust bæði í gær og í dag en með þeim er verið að kortleggja hversu víða um fjörðinn dauður fiskur finnst.

Stuttu eftir fyrstu fréttir af þessu mikla magni af síld í Grundarfirði var skipstjórinn á Krossey SF snöggur á staðinn og fyllti hann skipið í tveimur köstum. Ekki hefur sést til annarra síldarveiðiskipa í firðinum þrátt fyrir að þar sé nánast hægt að moka síldinni upp. Síldarverktíðinn er nánast lokið en óveidd eru rúmlega sjö þúsund tonn af kvótanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×