Viðskipti innlent

Icelandair Group gerir 3,5 milljarða leigusamning

Latcharter, lettneskt leiguflugfélag í eigu Loftleiða-Icelandic, dótturfélags Icelandair Group, hefur gert samning við ísraelska flugfélagið Israir um leigu á tveimur Airbus A320 farþegaflugvélum til þriggja ára auk þess sem félagið hefur framlengt leigu á Boeing 767-300ER breiðþotu til sama félags til loka þessa árs. Umfang samninganna nemur rúmlega 3,5 milljörðum króna.

Í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands segir að Airbus vélarnar, sem voru áður í rekstri hjá Air Canada, verði fyrstu Airbus þoturnar sem notaðar eru hjá ísraelskum flugfélögum. Latcharter tekur vélarnar á leigu frá bandaríska flugvélaleigufyrirtækinu KJ Aviation.

Þá kemur fram að Loftleiðir eignuðust Latcharter á miðju síðasta ári. Félagið hafði þá tvær Airbus vélar í rekstri, en sá floti tvöfaldast með þessum samningi. Gert er ráð fyrir að floti félagsins vaxi enn frekar á næstunni. Framkvæmdastjóri Latcharter er Garðar Forberg, sem áður starfaði hjá Íslandsflugi og Air Atlanta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×