Innlent

Samhjálp vill aðstöðu og fjármuni

Forstöðumaður Samhjálpar segir að meðferðarheimili þeirra geti ekki tekið við þeim hópi sem leitað hefur til Byrgisins, jafnvel þótt stjórnvöld leggi fé til með fólkinu, bætt aðstaða verði líka að koma til.

Í tengslum við endurskoðun á fjárstuðningi við Byrgið greindi Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra frá því í gær að rætt hafi verið við velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Samhjálp um úrræði fyrir skjólstæðinga Byrgisins. Samhjálp hefur þegar fallist á að rýma til á meðferðarheimili Samhjálpar að Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal fyrir þá sex sem voru á heimili Byrgisins að Efri-Brú þegar því var lokað.

Að sögn Heiðars Guðnasonar forstöðumanns Samhjálpar hefur engin ákvörðun verið tekin um aðra skjólstæðinga Byrgisins en eindregin vilji sé af hans hálfu til að koma að því að finna fyrir þá úrræði. Í dag anni Hlaðgerðarkot hins vegar ekki meiri eftirspurn því nú þegar verði að vísa frá 70-75 prósentum þeirra sem þangað leita. Því er ljóst að ekki nægi að stjórnvöld leggi fé til með fólkinu heldur verður meira að koma til.

Spurður hvort Samhjálp geti hugsað sér nýta húsakynnin að Efri-Brú segir Heiðar það vel koma til greina en líklega verði þó að gera einhverjar breytingar á þeim áður. Samhjálp hefur veitt hefðbundna áfengismeðferð um langt árabil. Samtökin eru sjálfstæð og óháð en stjórn þeirra er sú sama og Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×