Innlent

Margrét útilokar ekki formannsframboð

Margrét Sverrisdóttir útilokar ekki framboð til formennsku Frjálslynda flokksins. Margrét lýsti yfir framboði til varaformanns í gærkvöldi, en eftir að formaðurinn, Guðjón Arnar Kristjánsson lýsti yfir eindregnum stuðningi við sitjandi varaformann skipuðust veður í lofti.

Margrét Sverrisdóttir mætti í hádegisviðtal Stöðvar 2 í dag til að ræða framboð sitt til varaformanns og furðaði sig þar á stuðningsyfirlýsingu Guðjóns Arnar Kristjánssonar, formanns, við sitjandi varaformann, Magnús Þór Hafsteinsson. Einkum þar sem hann væri þar með að slá á útrétta sáttahönd hennar eftir deilur sem hafa verið í flokknum.

Á fjórða tímanum bárust hins vegar þær fregnir að Margrét íhugaði framboð til formanns. Þegar rætt var við Guðjón Arnar í dag kannaðist hann ekki við ósætti innan flokksins. Um stuðning sinn við Magnús, sagði Guðjón: "Maður skiptir ekki um áhöfn þegar vel gengur."

Hann sagði jafnframt að Margréti væri það frjálst að bjóða sig fram til formanns.

Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður segir þingflokkinn ekki vera að snúast gegn Margréti. Hún hafi stefnt að þessu lengi en heykst á því að fella formanninn. Efnt til ófriðar, niðurlægt þingmenn og ráðist á saklaust fólk sem hefði viljað ganga til liðs við flokkinn. "Þetta er bara valdabarátta."

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×