Viðskipti erlent

Hagnaður Apple jókst mikið milli ára

Hagnaður bandaríska tölvuframleiðandans Apple nam einum milljarði bandaríkjadala á síðasta fjórðungi liðins árs. Þetta jafngildir rúmum 70 milljörðum íslenskra króna sem er 78 prósenta aukning á milli ára. Skýringanna er helst að leita í gríðarmikilli söluaukningu á iPod-spilurum og meiri sölu á fartölvum um jólin.

Til samanburðar nam hagnaður Apple á sama tíma árið áður „einungis" 565 milljónum dala eða um 39,5 milljörðum króna.

Þá námu tekjur fyrirtækisins 7,1 milljarði dala eða 497 milljörðum króna samanborið við 5,8 milljarð dali eða rúma 406 milljarða krónur á sama tíma árið 2005 en afkoman er talsvert yfir væntingum markaðsaðila vestanhafs.

Að sögn breska ríkisútvarpsins seldi Apple rúmlega 21 milljón iPod-spilara á fjórðungnum einum saman sem er helmingi meira en árið á undan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×