Erlent

ESB að endurskoða stjórnmálasamband við Líbíu

MYND/AP

Evrópuþingið mælti í dag fyrir því að lönd Evrópusambandsins myndu endurskoða stjórnmálasamband sitt við Líbíu ef stjórnvöld þar myndu ekki frelsa fimm búlgarska hjúkrunarfræðinga og palestínskan lækni sem bíða dauðarefsingar þar í landi. Læknaliðið var dæmt fyrir að hafa vísvitandi smitað um 450 börn af HIV veirunni.

Óháð samtök sem rannsakað hafa málið hafa komist að því að sökin liggur ekki hjá erlenda læknaliðinu heldur hafi HIV smitið verið til staðar áður en það kom til landins. Málið var tekið upp á þinginu eftir að Búlgaría varð meðlimur Evrópusambandsins þann 1. janúar síðastliðinn.

Takmörkuð tengsl eru á milli landa Evrópusambandsins og Líbíu en sum þeirra eiga í miklum orkuviðskiptum við landið og hafa þingmenn Evrópulandanna hótað að endurskoða þá samninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×