Innlent

Enn myrkur í Bláfjöllum en fólk laust úr lyftum

Björgunarsveitarmenn og starfsmenn skíðasvæðanna leituðu af sér allan grun um að einhver hefði orðið eftir úti í myrkrinu.
Björgunarsveitarmenn og starfsmenn skíðasvæðanna leituðu af sér allan grun um að einhver hefði orðið eftir úti í myrkrinu. MYND/Stöð 2
Flestir eru nú komnir heim úr Bláfjöllum og starfsmenn að klára að aka gil og brekkur í Bláfjöllum til að athuga hvort ekki hafi allir skíðamenn komist niður úr brekkunum eftir að rafmagn fór af svæðinu fyrr í kvöld. Viðgerð stendur enn yfir á rafmagnslínu sem slitnaði um sjö-leytið í kvöld þannig að rafmagn fór af svæðinu.a

Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Hjálparsveitir Skáta í Garðabæ og Reykjavík voru kallaðar til aðstoðar þegar ljóst var að fjöldi fólks sat fastur í báðum stólalyftum á svæðinu. Nokkuð vel gekk að ná fólki í lyftunum og rýma brekkur en rétt þótti að tryggja að brekkur væru auðar enda kalt í fjöllunum.

Það var útsendingarbíll frá ríkisútvarpinu sem olli slysinu. Hann ók niður brekku með loftnetið uppi. Þegar það rakst á rafmagnsvíra sló rafmagni út á öllu svæðinu.

Um eitt þúsund manns voru á Bláfjallasvæðinu þegar rafmagnið fór af. Milli 60 og 80 manns voru í lyftunni í Kóngsgili. Vararafstöð var beitt til að bakka lyftunni til að koma fólkinu niður. Þeir sem lengst voru í burtu þurftu að vera í um 30 mínútur í lyftunni.

Um þrjátíu björgunarsveitarmenn eru að störfum á svæðinu. Um er að ræða varúðarráðstöfun. Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar segir að ekki sé búist við að neinn skíðamaður hafi týnst og eftirgrennslanin taki væntanlega ekki langan tíma.

Á svæðinu er enn kolniðamyrkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×