Erlent

Stéttarfélög og stjórnvöld í Gíneu funda

Stéttarfélög í Gíneu og talsmenn stjórnarinnar ætla að funda á miðvikudaginn til þess að reyna að binda endi á allsherjarverkfall sem hefur lamað þjóðina. 40 manns hafa látið lífið í óeirðum tengdum verkfallinu undanfarnar tvær vikur.

Verkfallið hefur komið veg fyrir sendingar á báxíti, sem er leirtegund sem ál er unnið úr, en Gínea flytur út meiri báxít en nokkuð annað land. Það hefur leitt til þess að tekjur ríkisins hafa dregist saman, markaðir hafa lokað vegna matarskorts og bankar lokað.

Leiðtogar stéttarfélaga segja að Lansana Conte, forseti Gíneu, sé ekki hæfur til þess að gegna embætti sínu og krefjast afsagnar hans. Kona Contes er talin hafa náð stéttarfélögunum að samningaborðinu á ný en þau hættu viðræðum eftir að stjórnhermenn hófu skothríð á óvopnaða mótmælendur.

Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt aðgerðir stjórnarinnar og segir að rannsaka verði atburðina. Fá alþjóðasamtök virðast þó tilbúin að taka þátt í ferlinu þar sem þau líta á atburðarásina sem innanlandsmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×