Erlent

Egypskur bloggari fyrir dómstólum

MYND/AP

Lögfræðingar egypsks bloggara, sem hefur verið ákærður fyrir niðrandi skrif um íslam og að móðga forseta Egyptalands, segja að líklegt sé að hann verði dæmdur fyrir annað brota sinna. Abdel Karim Suleiman, sem er 22 ára fyrrum laganemi, er frjálslyndur múslimi. Hann gæti fengið allt að níu ára fangelsisdóm.

Á vefsíðu sinni sagði hann að sér fyndist Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, vera einræðisherra sem minnti á faraóana sem eitt sinn réðu ríkjum í Egyptalandi. Hann bætti því einnig við að múslimar hefðu hagað sér villimannslega í átökum milli múslima og kristinna í Alexandríu, en Suleiman býr þar, sumarið 2005. Fyrir þessi skrif er hann kærður fyrir að móðga forsetann, vega að íslömsku trúnni og efna til ófriðar.

Mannréttindasamtök fylgjast vel með málinu þar sem þau segja að þetta muni setja fordæmi og gæti þannig haft áhrif á tjáningarfrelsi í Egyptalandi. Nokkrir bloggarar sem voru viðstaddir réttarhöldin í dag sögðu að þeir myndu framvegis hugsa sig tvisvar um áður en þeir gagnrýndu stjórnvöld og trúbræður sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×