Innlent

Kosið um varaformann í dag

Kosið verður um varaformann Frjálslynda flokksins í dag á landsþingi flokksins. Tveir bjóða sig fram í embætti varaformanns, þau Margrét Sverrisdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, verður áfram formaður þar sem ekkert mótframboð hefur borist. Hann hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við Magnús Þór Hafsteinsson í sæti varaformanns. Landsþingið hófst á hótel Loftleiðum í gær.

Allir þeir sem skráðir eru í flokkinn og hafa greitt ársgjald geta kosið en gengið verður til kosninga klukkan þrjú í dag og verður húsinu lokað á meðan. Úrslit úr varaformannskjörinu er það sem flestir bíða eftir enda hörð barátta á milli þeirra Magnúsar Þórs og Margrétar Sverrisdóttur.

Rétt fyrir fréttir sagðist Magnús ekki smeykur um klofning í flokknum og sagðist ætla að vera áfram í flokknum hver sem úrslit kosningana verða. Talið er líklegt að úrslit muni liggja fyrir upp úr klukkan hálf fimm í dag. Ekki náðist í Margréti Sverrisdóttur fyrir hádegisfréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×