Erlent

Kjúklingur með andarfit

Kólumbískur bóndi keypti sér egg á dögunum, sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að kjúklingurinn sem kom úr egginu skartar sundfitjum að hætti anda. Líklega er að um stökkbreytingu sé að ræða.

Fólk hefur þyrpst að úr öllum áttum til að sjá þetta furðuverk náttúrunnar sem galar eins og hani en vappar um á sundfitjum eins og hver önnur önd. Kvikindið kom úr eggi sem kólumbíski bóndinn Jose Rengifo keypti á markaði á dögunum og honum varð ekki um sel þegar andhæsnið, sem hann kallar Paco, braust út úr skurninni. Hann hefur sínar skýringar á hvernig á þessum lapparuglingi stendur, að andarsteggur hafi gerst of nærgöngull við móður Pacos.

Þessa skýringu telja vísindamenn reyndar ósennilega þar sem endur og hæsni eru of ólíkar dýrategundir til að geta eignast afkvæmi. Líklegra er að einhvers konar stökkbreyting hafi orðið á erfðaefni fuglsins á meðan hann þroskaðist í eggi sínu. Ekki er búist við að Paco taki upp siði anda og fari að svamla um í tjörnum.

En talandi um endur, Fjarskyldur ættingi Pacos, öndin Perky, sem komst í heimsfréttirnar á dögunum eftir skotárás og tveggja daga vist í ísskáp veiðimanns frá Flórída er nú óðum að ná fyrri heilsu. Hún fór í aðgerð um helgina og um tíma hékk raunar líf hennar á bláþræði en sem betur fer tókst læknum að lífga Perky aftur við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×