Erlent

Vara Írana við afskiptum

Bandarísk stjórnvöld hafa varað Írana við að aðstoða íraska uppreisnarmenn í baráttu þeirra gegn erlenda setuliðinu. Landamærum Íraks að Sýrlandi og Íran var lokað í morgun.

Nicholas Burns aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði í samtali við BBC í morgun að vísbendingar væru um að Íranar hefðu á undanförnum misserum látið uppreisnarflokkum sjía um allt Írak í hendur sprengiefni og leiðbeiningar um notkun þess og það væri síðan notað til að ráðast gegn erlenda herliðinu sem er í landinu. Þannig hefði komið í ljós að menn sem handteknir voru í áhlaupi á íranska ræðismannsskrifstofu í Irbil í janúarbyrjun hefðu verið félagar í íranska byltingarverðinum en ekki diplómatar. Þessu hafa írönsk stjórnvöld neitað þráfaldlega. Í tengslum við þetta ákvað íraska ríkisstjórnin í morgun að loka landamærunum að Íran og stöðva allt flug til og frá Sýrlandi. Fyrir dyrum stendur enn eitt átakið gegn hermdarverkamönnum í landinu en talið er að nokkur hluti þeirra komi frá nágrannaríkjunum.

Hinum megin Atlantshafsins stefnir allt í að öldungadeildarþingmenn úr báðum flokkum samþykki ályktun þar sem lagst er gegn þeim áformum Bush Bandaríkjaforseta um að fjölga í herliðinu í Írak. Ályktunin er fyrst og fremst táknræn en sú staðreynd að repúblikanar í öldungadeildinni hafi snúist gegn forseta sínum er talið vera Bush mikið áhyggjuefni. Þá lýstu tveir fyrrverandi utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, þau Henry Kissinger og Madeleine Albright, þeirri skoðun sinni í yfirheyrslum hjá utanríkismálanefnd þingsins í gær að til að ná árangri í Írak ætti að leggja ætti höfuðáherslu á uppbyggjandi viðræður við nágrannaríkin en eins og yfirlýsing Burns frá því morgun ber með sér eru slíkar viðræður ekki hátt skrifaðar hjá stjórninni í Washington.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×