Erlent

Auglýsingaskilti valda hræðslu í Boston

Auðsjáanlegt er að borgarbúar í Boston hafi búist við hinu versta þegar þessi skilti fóru að sjást um alla borg.
Auðsjáanlegt er að borgarbúar í Boston hafi búist við hinu versta þegar þessi skilti fóru að sjást um alla borg. MYND/AP

Lögreglan í Boston handtók í dag tvo menn sem höfðu sett upp 38 auglýsingaskilti víðsvegar um borgina. Skiltin þóttu minna á sprengjur í útliti. Varð það til þess að lögreglan setti í gang neyðaraðgerðir með hjálp strandgæslunnar, sprengjusveita, sérsveita og björgunarsveita.

Umferð stöðvaðist víðs vegar um borgina vegna skiltanna. Talið er að viðbúnaðurinn hafi kostað borgina allt að 50 milljónir íslenskra króna. Auglýsingaskiltin voru hluti af herferð fyrir teiknimyndaseríuna „Aqua Teen Hunger Force" sem sýnd er á sjónvarpsstöðinni Cartoon Network.

Á skiltunum, sem voru um einn meter á hæð, var mynd af söguhetju úr teiknimyndum að gefa dónalega bendingu á þann er á skiltið horfði. Á því voru einnig vírar, torkennilegir hlutir vafðir í límband og blikkandi ljós en sprengjusveitir sögðu það benda til þess að um sprengjur gæti verið að ræða.

Mönnunum tveimur, sem höfðu sett skiltin upp, var síðan sleppt gegn tryggingu í kvöld. Hægt er sjá myndband þar sem þeir eru að gera skiltin á vefsíðunni www.zebbler.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×