Erlent

Forseti Gambíu segist geta læknað alnæmi

Forseti Gambíu, Yahya Jammeh, tilkynnti í janúarlok að hann gæti læknað fólk af alnæmi og HIV á þremur til tíu dögum. Sérfræðingar í alnæmi og HIV um heim allan hafa fordæmt yfirlýsingu Jammeh og segja að hún gæti leitt til þess að smit aukist þar sem yfirlýsingin gæti gert sjúkdóminn léttvægan í augum almennings.

Jammeh hélt fréttamannafund með erindrekum erlendra stjórnvalda í janúarlok og skýrði frá þessu. Hann sagði þar að sjúklingar fengju jurtalyf sem væri bæði tekið inn og smurt á líkama þeirra. Eftir .þrjá til tíu daga hefði þeir þyngst, styrkst og líðan þeirra batnað. Heilbrigðisráðherra landsins tók undir þessar fullyrðingar forsetans.

Jerry Codiva, prófessor í alnæmi/HIV fræðum við háskólann í KwaZulu Natal í Suður-Afríku segir að það sé einstaklega ólíklegt að einhver hafi fundið svo góða lækningu á alnæmi/HIV í dag þar sem tæknin og vitneskjan um sjúkdóminn væru einfaldlega ekki fullnægjandi.

Jammeh segist þó standa við fullyrðingar sínar og heldur því einnig fram að hann geti læknað astma. „Ég er ekki galdralæknir því það er ekki hægt að vera bæði galdramaður og læknir. Maður er annaðhvort galdramaður eða læknir." sagði Jammeh. Hann bætti við að þegar að niðurstöður kæmu úr prófum þeim alnæmissjúklinga sem hann hefur meðhöndlað myndi heimsbyggðin trúa honum.

Einn af sjúklingum hans er kennari við háskólann í Gambíu. „Ég hef tekið eftir því að ég hef þyngst töluvert og þjáist ekki lengur af hægðatregðu. Ég bíð þó enn eftir niðurstöðum prófanna. Ég ber 100% traust til forsetans og hef fulla trú á lyfjagjöf hans." sagði Ousman Sowe, háskólakennari og sjúklingur Jammeh.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×