Erlent

Yfir þúsund hafa fallið í vikunni

Yfir þúsund manns liggja í valnum í Írak eftir átök og árásir undanfarinna sjö daga.(imk) Stjórnvöld í landinu segja fylgismenn Saddams Hussein hafa staðið á bak við hryðjuverkið í Bagdad í gær sem kostaði 135 mannslíf.

Árásin í gær er sú mannskæðasta sem framin hefur verið frá því að ráðist var inn í landið vorið 2003. Vörubíll hlaðinn sprengiefni var sprengdur upp við markaðstorg í einu af sjíahverfum borgarinnar með þeim afleiðingum að 135 dóu og hátt í þrjú hundruð særðust. Heilu húsaraðirnar tættust í sundur eða jöfnuðust hreinlega við jörðu. Í morgun blasti eyðileggingin alls staðar við, enn var verið að leita að líkum í rústum húsa og grátandi fólk ráfaði um blóði drifnar göturnar. Í yfirlýsingu sinni í gærkvöld kenndi Nuri al-Maliki forsætisráðherra fylgismönnum Saddams Hussein um tilræðið og hét því að skera upp herör gegn öfgamönnum. Maliki hefur áður haft svipaðar heitstrengingar í frammi en ekki er að sjá að stjórnin fái neinum böndum komið á ofbeldið í landinu. Samkvæmt heimildum Reuters-fréttastofunnar hafa um eitt þúsund manns látið lífið í sjálfsmorðstilræðum, skotárásum og bardögum á milli hermanna og uppreisnarmanna síðastliðna viku. Erlenda setuliðið hefur heldur ekki farið varhluta af versnandi ástandi í landinu því í dag greindi William Caldwell, talsmaður Bandaríkjahers í Írak frá því að fjórar þyrlur sem farist hefðu í Írak á undanförnum vikum hefði verið grandað af uppreisnarmönnum.

Caldwell sagði að í ljósi árásanna yrði notkun hersins á þyrlum yrði endurskoðuð en þetta er í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn viðurkenna að þyrlunum fjórum hafi verið grandað. Árásirnar á þær þykir sýna svo ekki verður um villst hversu skipulagðir andspyrnuhópar Íraks eru og vel vopnum búnir..




Fleiri fréttir

Sjá meira


×