Erlent

Danir undrandi á hjónabandi Alexöndru

Alexandra prinsessa, fyrrverandi eiginkona Jóakims Danaprins, ætlar að gifta sig aftur hinn 3. mars næstkomandi. Með því slitna öll tengsl hennar við dönsku konungsfjölskylduna. Eiginmaður hennar verður hinn 27 ára gamli ljósmyndari Martin Jörgensen. Margir Danir eru furðu lostnir yfir þessari ákvörðun prinsessunnar.

Það hefur verið opinbert leyndarmál í meira en ár að Alexandra og Martin Jörgensen búa saman. Danir eru frjálslynt fólk og hafa ekki gert neinar athugasemdir við það. Þessvegna eru margir undrandi á því að hún skuli ætla að giftast, hún missir marga spóna úr aski sínum.

Með því slitnar samband hennar við konungsfjölskylduna og hún verður ekki lengur prinsessa heldur aðeins greifynjan af Friðriksborg. Sem móðir tveggja prinsa heldur hún áfram að fá einhverjar greiðslur úr opinberum sjóðum, en verður að borga af þeim tekjuskatt. Hún verður einnig að borga fasteignaskatt og alla aðra skatta. Þar að auki verður hún að borga virðisaukaskatt af öllu sem hún kaupir, en við það hefur hún sloppið hingaðtil. Danskur skattasérfræðingar segir að ráðstöfunartekjur hennar muni minnka um heil 74 prósent.

Alexandra giftist Jóakim Prins árið 1995 og þau skildu eftir tíu ára hjónaband, árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×