Innlent

Samfylkingin vill huga að sprotafyrirtækjum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var á meðal þeirra sem kynntu tillögur Samfylkingarinnar í dag.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var á meðal þeirra sem kynntu tillögur Samfylkingarinnar í dag. MYND/Vísir
Á blaðamannafundi í dag kynnti Samfylkingin nýja stefnumótun í atvinnumálum. Þær unnu til verðlauna á nýafstöðnu Sprotaþingi Samtaka sprotafyrirtækja og Samtaka iðnaðarins sem haldið var á föstudag. Þar greiddu fundarmenn atkvæði um tillögur stjórnmálaflokkanna og urðu tillögur Samfylkingarinnar í þremur efstu sætunum.

Samfylkingin vill að sérstaklega verði hugað að nýsköpun í atvinnulífinu og stuðningi við íslensk sprotafyrirtæki. Á meðal markmiða fyrir næstu tíu ár verður að tífalda útflutningsvirði hátæknifyrirtækja og skapa fimm þúsund ný störf í hátæknigeiranum.

Til þess að ná þessum markmiðum leggur Samfylkingin meðal annars til að fjórfalda framlag í Rannsóknar- og Tækniþróunarsjóð á næstu fjórum árum og að breyta lögum um tekju- og eignaskatt til þess að heimila skattaívilnanir vegna fjárfestinga einstaklinga í sprotafyrirtækjum.

Samfylkingin vill einnig koma á fót stoðkerfi vegna einkaleyfa og hugbúnaðarréttinda og jafnvel kanna möguleika á samstarfi við lögmannsstofur og lagadeildir háskólanna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×