Innlent

Orðaskak á þingi vegna ummæla Frjálslyndra

Þingmenn Frjálslynda flokksins gerðu harða hríð að Sæunni Stefánsdóttur, þingmanni Framsóknarflokks og formanni Innflytjendaráðs, í upphafi þingfundar í morgun, fyrir að halda því fram að Frjálslyndi flokkurinn ali á mannfyrirlitningu og hatri í garð útlendinga í útvarpserindi í gær. Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra kom félaga sínum til varnar og sagði frjálslyndi Frjálslynda flokksins komið langt frá upprunalegri merkingu orðsins.

Guðjón Arnar Kristjánsson kom upp í upphafi þingfundar og vitnaði í þingmann Framsóknarflokksins sem hefði sagt í útvarpserindi að boðskapur ræðu hans á Landsþingi Frjálslynda um málefni útlendinga hefði verið svo ógeðfelldur að ekki væri hægt að vitna i hann.

Sæunn Stefánsdóttir ítrekaði að stefna frjálslyndra æli ótta og andúð í garð innflytjenda. Það staðfesti ræða formanns Frjálslynda flokksins.

Guðjón Arnar sagði að það kæmi fram í farsóttarbréfi Landlæknis kæmi fram að rík áhersla væri til að fylgjast með berklasmiti í röðum innflytjenda.

Sigurjón Þórðarson sagðist aldrei hafa heyrt jafn ómerkilegan málflutning en þau orð vöktu mikla kátínu í þingsal. Hann spurði hvort heilbrigðisráðherra væri þá haldinn útlendingahatri úr því hann hefði sett reglugerð um að það þyrfti að fylgjast með berklasmiti þeirra sem kæmu til landsins.

Heilbrigðisráðherra sagði að fylgst væri með þeim sem þyrfti að fylgjast með vegna smitsjúkdóma. Ekki til að ala á tortryggni almennt. Það sé ljótur leikur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×