Innlent

Íslenskt viðskiptalíf og menning í Danmörku

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur erindi á þremur viðburðum í Kaupmannahöfn í dag og á morgun.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur erindi á þremur viðburðum í Kaupmannahöfn í dag og á morgun.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hélt til Danmerkur í morgun þar sem hann mun m.a. flytja opnunarávarp á sýningu með verkum Jóhannesar Kjarval og Ólafs Elíasonar. Sýningin ber heitið Lavaland og verður í listasafninu Gammel Strand í Kaupmannahöfn. Þetta er í fyrsta sinn sem verkum þessara myndlistarmanna er skipað saman á sýningu.

Í fyrramálið verður málþing danskra atvinnurekenda í húsakynnum Dansk Industry. Þar mun forseti Íslands flytja erindi um árangur íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu og framtíðarhorfur í íslensku viðskiptalífi. Aðrir frummælendur verða Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings, Hannes Smárason forstjóri FL-Group og Hörður Arnarson forstjóri Marels. Fundarstjóri á málþinginu er Uffe Elleman Jensen fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur.

Forsetinn mun einnig ýta verkefni um Gullfoss úr vör á morgun. Einstöku líkani af skipinu, sem var flaggskip íslenska flotans og brú milli Íslands og Danmerkur, hefur verið komið fyrir í húsakynnum Norðurbryggju.

Þá mun forsetinn kynna sér umfang íslenskrar fjármálastarfsemi í Danmörku með því að heimsækja höfuðstöðvar danska bankans FIH Erhvervsbank sem er í eigu Kaupþings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×