Erlent

Hamas og Fatah nálgast samkomulag

Abdullah, konungur Sádi-Arabíu, sést hér með Khaled Meshaal (t.v.), útlægum leiðtoga Hamas, og Mahmoud Abbas (t.h.), leiðtoga Fatah, í Mekka í dag.
Abdullah, konungur Sádi-Arabíu, sést hér með Khaled Meshaal (t.v.), útlægum leiðtoga Hamas, og Mahmoud Abbas (t.h.), leiðtoga Fatah, í Mekka í dag. MYND/AP
Hamas og Fatah hreyfingarnar hafa náð samkomulagi um hverjir munu skipa flestar stöður í væntanlegri þjóðstjórn Palestínu. Sagt var frá þessu í dag. Aðeins á eftir að velja innanríkisráðherra Palestínu.

Miklar vonir eru bundnar við að samkomulag um ráðherrastóla muni hjálpa til við að binda endi á þá óöld sem ríkt hefur í Palestínu á þessu ári. Fleiri en 90 Palestínumenn hafa látið lífið í átökum þar síðan í desember.

Samkomulagið náðist á fundum sem konungurinn í Sádi-Arabíu, Abdullah, stendur fyrir í borginni Mekka. Markmiðið er að samkomulagið byggi á tillögu sem var lögð fram árið 2002 en hún felur í sér að fylkingarnar tvær viðurkenni tilvist Ísraels.

Enn er þó óvíst hvort að Ísrael eigi eftir að samþykkja þá stjórn sem verður mynduð í Mekka. Utanríkisráðherra Ísraels, Tzipi Livni, sagði í gær að Ísrael myndi ekki samþykkja palestínska stjórn sem viðurkenndi ekki tilverurétt Ísraels.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×