Erlent

Átök við al-Aqsa moskuna

Viðbrögð við samkomulagi stríðandi fylkinga í Palestínu, um myndun þjóðstjórnar, hafa verið varfærin enda er tilveruréttur Ísraelsríkis ekki viðurkenndur þar sérstaklega. Til heiftarlegra átaka kom á milli ísraelskra lögreglusveita og íslamskra mótmælenda við al-Aqsa-moskuna í Jerúsalem í dag.

Al-Aqsa moskan er einn helgasti staður múslima en hún stendur á Musterishæðinni sem gyðingar telja ginnheilaga. Þar standa nú yfir framkvæmdir á vegum Ísraelsstjórnar sem múslimar óttast að muni eyðileggja moskuna. Við föstudagsbænirnar í morgun kom svo til óeirða nærri moskunni þegar ungmenni köstuðu flöskum og grjóti að lögreglu sem svaraði með því að skjóta smásprengjum að þeim. Um þrjátíu særðust úr beggja röðum en síðdegis var ró komin að mestu á.

Óeirðirnar setja nokkurn blett á gleðina sem ríkti á heimastjórnarsvæðunum í gær vegna samkomulags Fatah og Hamas um myndun þjóðstjórnar sem undirritað var í Mekka í gær. Vonast er til að með því hafi endi verið verið bundinn á átök fylkinganna sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði.

Í samkomulaginu er kveðið á um að Hamas fái níu ráðuneyti í sinn hlut í nýju stjórninni, Fatah sex og fjórir ráðherrar tilheyra öðrum smærri hreyfingum. Ismail Haniyeh, úr Hamas, verður áfram forsætisráðherra en ráðherrar innanríkis-, utanríkis- og fjármála- koma úr röðum óháðra. Tilveruréttur Ísraelsríkis er hins vegar ekki viðurkenndur sérstaklega í samkomulaginu og sú staðreynd skýrir hversu hófstillt viðbrögðin við því hafa verið. Talsmenn bandarískra stjórnvalda og Evrópusambandsins telja of snemmt að segja hvort samkomulagið þýði að styrkgreiðslur til heimastjórnarinnar verði teknar upp á ný og ekki er annað að heyra á ísraelskum ráðamönnum en þeir telji að ekkert hafi breyst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×