Erlent

Skaut föstum skotum að Bandaríkjamönnum.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti sakaði Bandaríkin um valdníðslu, í ræðu sinni á ráðstefnu um öryggismál í Þýskalandi í dag. Við sama tækifæri skoraði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á Írana að sýna samvinnu um kjarnorkumál sín. Innan Bandaríkjahers er undirbúningur að hernaðaraðgerðum gegn Íran sagður langt kominn.

Á ráðstefnunni sem fram fer í München í Þýskalandi skeggræða 250 áhrifamenn stöðu og horfur í öryggismálum vítt og breitt um heiminn. Angela Merkel kanslari flutti ávarp í upphafi fundarins þar sem hún sagði algera einingu ríkja um að koma í veg fyrir að Íranar komi sér upp kjarnorkuvopnun. Ennfremur varaði hún þá við að einangrast enn frekar vegna skorts á samvinnu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina. Föst skot Vladimirs Pútín á Bandaríkjastjórn voru hins vegar það sem mesta athygli vöktu í dag. Í ræðu Vladimirs Pútín Rússlandsforseta kom aftur á móti fram hörð gagnrýni á valdbeitingu Bandaríkjamanna um allan heim og sakaði hann þá um að knýja önnur ríki til vígbúnaðarkapphlaups.

Erindrekar klerkastjórnarinnar í Teheran hafa notað daginn í að reyna sannfæra fundarmenn um að þeir hyggist einungis ætla að nota kjarnorkuna í friðsamlegum tilgangi. Breska blaðið Guardian hefur eftir heimildiarmönnum sínum í Washington að undirbúningur að aðgerðum gegn Íran sé langt kominn innan Bandaríkjahers og ættu þær jafnvel að geta hafist með vorinu. Þó er talið líklegra að ekki verði ráðist í þær fyrr en á næsta ári, skömmu áður en George Bush Bandaríkjaforseti lætur af embætti. Í grein blaðsins kemur fram að Dick Cheney varaforseti sé í forystu þeirra sem telja að ráðast eigi á Íran vegna kjarnorkuáætlunarinnar en Condoleezza Rice utanríkisráðherra og Robert Gates landvarnaráðherra leggist hins vegar gegn því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×