Innlent

Sea Sheperd enn við sama heygarðshornið

Reyna á til þrautar að höggva á hnútinn í Alþjóða hvalveiðiráðinu á ráðstefnu sem fram fer í Japan í næstu viku en formaður íslensku sendinefndarinnar er svartsýnn á að hún skili árangri. Liðsmenn Sea Sheperd-samtakanna réðust á japanskt hvalveiðiskip í Suðurhöfum í gær.

Á ráðstefnunni í Japan á að ræða þá kreppu sem ríkir í starfi Alþjóðahvalveiðiráðsins en eins og sakir standa geta hvorki hvalveiðisinnar né verndunarsinnar komið málum sínum þar í gegn þar sem þrjá fjórðu hluta atkvæða þarf til að gera meiriháttar breytingar á samþykktum ráðsins. Stefán Ásmundsson formaður íslensku sendinefndarinnar er ekki bjartsýnn á að samkomulag náist um endurbætur enda ætla þau ríki sem ákafast berjast gegn hvalveiðum að sniðganga ráðstefnuna.

Umhverfisverndarsamtök láta ekki sitt eftir liggja í baráttunni gegn hvalveiðum. Í gær lenti japanskt skip á hvalveiðum í sunnanverðu Kyrrahafi í klónum á Paul Watson og félögum hans í Sea Sheperd-samtökunum. Skip samtakanna, Farley Mowat, sigldi upp að japanska skipinu og liðsmenn þeirra helltu svo smjörsýru á dekk þess. Tveir Japananna slösuðust í hamaganginum, annar fékk sýru í augun. Áður höfðu Japanarnir aðstoðað Sea Sheperd eftir að tveir liðsmenn þeirra féllu útbyrðis af gúmmíbáti. Japönsk stjórnvöld hafa fordæmt aðgerðirnar harðlega en Paul Watson segir þær lögmæta baráttu gegn ólöglegum hvalveiðum og þeim verði haldið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×