Körfubolti

Carmelo Anthony valinn í stjörnuleikinn

Carmelo Anthony er glaður með að hafa verið valinn í stjörnuleikinn.
Carmelo Anthony er glaður með að hafa verið valinn í stjörnuleikinn. MYND/Getty

Vandræðagemlingurinn Carmelo Anthony hefur verið valinn í lið Vesturdeildarinnar sem tekur þátt í stjörnuleik NBA-deildarinnar þann 18. febrúar næstkomandi. Það var framkvæmdastjóri deildarinnar, sjálfur David Stern, sem valdi Anthony í leikinn vegna meiðsla Carlos Boozer.

Anthony hafði ekki verið valinn í byrjunarlið vestursins af áhangendum deildarinnar þrátt fyrir að vera stigahæsti leikmaður tímabilsins með 30,8 stig að meðaltali. Hann hlaut síðan heldur ekki náð fyrir þjálfara Vesturliðsins, líklega vegna framkomu sinnar í leik Denver og New York fyrir skemmstu þar sem Anthony sló til andstæðings og var dæmdur í 15 leikja bann.

Yao Ming og Carlos Boozer þurftu að draga sig úr liðinu vegna meiðsla og kom það í hlut Stern að tilnefna eftirmenn þeirra. Ásamt Anthony ákveð Stern að velja Josh Howard hjá Dallas í liðið.

"Ég var nokkuð bjartsýnn um að hann myndi velja mig og ég er mjög glaður. Mér er alveg sama á hvaða forsendum ég spila leikinn, þetta er stjörnuleikurinn og það er heiður að fá að taka þátt í honum," sagði Anthony eftir að hafa verið valinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×