Erlent

Fóstureyðingarlöggjöf verður breytt í Portúgal

Fóstureyðingarlöggjöf í Portúgal verður breytt þrátt fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla í gær um breytingar á henni hafi ekki verið bindandi. Núgildandi löggjöf hefur verið sú strangasta í Evrópu.

Samkvæmt þeirri löggjöf sem nú er í gildi hafa fóstureyðingar aðeins verið leyfðar ef getnaður hefur orðið við naugun, ef heilsu móður er ógnað eða ef sterkar líkur eru á fósturgalla. Samkvæmt nýrri löggjöf yrði öllum konum leyft að eyða fóstri fram að tíundu viku meðgöngu.

Greidd voru atkvæði um lagabreytinguna í gær en kosningaþátttaka var aðeins um 40%. Af þeim sem greiddu atkvæði vildu 60% nýja löggjöf. Helmingur kosningabærra Portúgala hefði þurft að greiða atkvæði til þess að kosningin hefði talist bindandi.

Í morgun sagði Jose Socrates, forsætisráðherra Portúgals, að fóstureyðingalöggjöf landsins yrði breytt þrátt fyrir þetta. Sósíalistaflokkur Socrates hefur nauman meirihluta á portúgalska þinginu en virðist njóta stuðnings tveggja annara flokka í þessu tiltekna máli.

Andstæðingar breytinganna segja að með þessu sé verið að lögleiða fóstureyðingar eftir pöntun þar sem konum verði ekki gert að færa sérstök rök fyrir ákvörðun sinni. Níu af hverjum tíu Portúgölum eru kaþólskir og segir patríarkinn í Lissabon að samkvæmt því ættu nær allir Portúgalar nú að rísa upp og mótmæla þessari breytingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×