Erlent

Flóðin ekki haft áhrif á starfsemi ÞSSÍ

Mynd frá Maputo.
Mynd frá Maputo. MYND/Vísir
Um eitt hundrað manns hafa farist í flóðum í Mósambík á síðustu dögum en hermenn og hjálparstarfsmenn á þyrlum og bátum hafa flutt á brott um sextíu þúsund íbúa. Flóðin hafa enn sem komið er ekki haft nein áhrif á verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Mósambík, að sögn Jóhanns Pálssonar umdæmisstjóra ÞSSÍ í Mapútó.

Verst er ástandið í miðhluta Mósambík þar sem Zambesi áin flæðir yfir bakka sína. Talið er að rúmlega eitt hundrað þúsund manns séu í hættu vegna vatnsflaumsins og spáð er áframhaldandi úrkomu næstu daga.

Jóhann segir að miklar rigningar í Simbabve og Sambíu hafi leitt til þess að Zambesi áin flæddi yfir bakka sína. "Starfsmenn virkjana í ánni hafa neyðst til að opna yfirfallslokur til að verja mannvirkin og það veldur miklum flóðum meðfram ánni," segir hann. "Einnig eru víða í miðhluta Mósambík, og á stöku svæðum norðar, staðbundnar rigningar sem valdið hafi töluverðu tjóni á húsum og uppskeru. Það er spáð meiri rigningu og það getur leitt til þess að ástandið verði virkilega alvarlegt á sumum svæðum," bætir hann við.

Gífurleg flóð urðu 800 manns að aldurtila í Mósambík á árunum 2000-2001. Þótt flóðin verði jafnvel meiri að þessu sinni eru almannavarnir og björgunarsveitir nú betur skipulagðar og því eru bundnar vonir við að koma megi sem flestum til bjargar. Hins vegar hafa þegar 46 þúsund heimili skolast burt í vatnselgnum.

Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (World Food Program) sendi í dag út hjálparbeiðni um matvæla- og neyðaraðstoð fyrir þá sem orðið hafa verst úti í flóðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×