Innlent

Sýndi mikinn kjark og frumkvæði

Egill Vagn er hér með fjölskyldu sinni eftir að hann tók við viðurkenningunni sem skyndihjálparmaður ársins 2006.
Egill Vagn er hér með fjölskyldu sinni eftir að hann tók við viðurkenningunni sem skyndihjálparmaður ársins 2006. MYND/Vísir

Skyndihjálparmaður ársins 2006 sýndi mikinn kjark og frumkvæði þegar hann bjargaði lífi móður sinnar í fyrrasumar. Almennt er þó mælt með að börn leiti fyrst aðstoðar og aðhafist svo eftir að neyð ber að höndum.

Egill Vagn Sigurðsson, átta ára, var heiðraður í gær þegar Rauði krossinn útnefndi hann skyndihjálparmann ársins 2006. Eins og fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá í fyrrasumar, þótti hann sýna ótrúlegt snarræði þegar hann bjargaði lífi móður sinnar, Ástu Laufeyjar Egilsdóttur, með því að sprauta hana með andrenalínpenna þegar hún féll í öngvit á vegna bráðaofnæmis á heimili þeirra á Svalbarðseyrinni í fyrrasumar.

Egill Vagn var svo sjálfstæður í lífgjöfinni þegar á reyndi að þegar móðir hans hné niður greip hann strax til sinna ráða og sprautaði móður sína en hringdi svo á neyðarlínuna. Almennt er ekki mælt með þvi að börn grípi til aðgerða áður en þau hafa leitað sér aðstoðar en móðir hans sagði eftir atvikið í fyrrasumar að frumkvæði sonarins hefði að hennar mati skipt sköpum, enda um sekúndur að tefla.

Rauði krossinn leggur áherslu á að landsmenn fari á skyndihjálparnámskeið og foreldrar upplýsi börn um viðbrögð þegar hættu ber að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×