Erlent

Tölva sem byggir á skammtafræði afhjúpuð á morgun

MYND/Vísir

Kanadíska fyrirtækið D-Wave hefur greint frá því að á morgun muni það sýna fyrstu tölvuna sem byggir á skammtafræði. Tölvur í dag byggjast upp á því að í örgjörvum þeirra eru send merki sem annað hvort tákna 1 eða 0. Tölvur sem byggja á lögmálum skammtafræði senda hins vegar merki sem geta verið 1 og 0 á sama tíma. Það gerir tölvunni kleift að sjá um allt að 64 þúsund útreikninga í einu sem er margfalt meira en tölvur gera í dag.

Tölvan verður aðallega ætluð til þess að leita í og flokka gríðarmikið magn af gögnum, til að mynda á leitarvélum. Þó er ekki búist við því að almenningur geti keypt sér slíkan grip á næstu árum. Tölvan er sem stendur á stærð við stóran kæliskáp. Til þess að geta starfað eftir lögum skammtafræðinnar þarf kerfi tölvunnar nefnilega að vera nálægt alkuli og því er tölvan bæði stór og ísköld.

Hugsanlegt er að tölvan verði notuð við öryggistækni síðar meir. Hún gæti til dæmis verið notuð þegar bera á saman myndir eða fingraför á flugvöllum víða um heim. Hún verður líklega mikið fljótari en sá tölvubúnaður sem núna er notast við. Tölvufræðingar taka þó þessari yfirlýsingu D-Wave fyrirtækisins með ró og segjast ætla bíða þess að sjá hvað tölvan getur áður en þeir taka yfirlýsinguna trúanlega.

Fréttavefur ABC news skýrði frá þessu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×