Viðskipti erlent

Hagnaður Nasdaq 4,3 milljarðar króna

Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn Nasdaq skilaði 63 milljóna dala hagnaði á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Það svarar til 4,3 milljarða íslenskra króna og jafngildir þreföldun frá því á sama tíma árið 2005. Tekjur markaðarins tvöfölduðust á sama tímabili.

Tekjurnar námu 447,3 milljónum dala, 30,5 milljörðum króna, samanborið við 259,5 milljónir dala, jafnvirði 17,7 milljarða íslenskra króna, ári áður.

Þetta þykja einkar góðar fréttir fyrir stjórn Nasdaq sem þurfti að horfa upp á að yfirtökutilboð markaðarins í alla útistandandi hluti í bresku kauphöllinni í Lundúnum í Bretlandi (LSE) var fellt um síðustu helgi. Þar með lauk árslöngu yfirtökuferli Nasdaq í LSE. Ekki liggur fyrir hver næstu skref Nasdaq verður en markaðurinn má lögum samkvæmt ekki leggja fram nýtt yfirtökutilboð í LSE fyrr en að ári.

Nasdaq á tæpan 29 prósenta hlut í LSE auk 13,9 prósenta eignarhlutar í kauphöllinni í New York í Bandaríkjunum, einum helsta keppinaut Nasdaq.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×