Erlent

Lausn í kjarnorkudeilu Norður-Kóreumanna

Langvinnri deilu um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreumenn virðist nú lokið með fyrsta skrefi stjórnvalda í Pyongyang að kjarnorkuvopnalausum Kóreuskaga. Samkvæmt nýju samkomulagi verður áætlunin lögð á hilluna í skiptum fyrir eldsneyti.

Viðræður sexveldanna svokölluðu um kjarnorkuáætlun stjórnvalda í Pyongyang hófust fyrst í lok ágúst 2003 og hafa staðið síðan með hléum. Að samningaborðinu koma, auk Norður-Kóreumanna, fulltrúar Bandaríkjanna, Japans, Kína, Rússlands og Suður-Kóreu.

Samkvæmt samkomulaginu slökkva Norður-Kóreumenn á kjarnaofninum í Yongbyon innan 60 daga í skiptum fyrir 50 þúsund tonn af olíu eða efnahagsaðstoð sem jafngildi því. Alþjóðlegir eftirlitsmenn verða þó fyrst að staðfesta að slökkt hafi verið á ofninum. Ráðamenn í Pyongyang ætla þá einnig að hætta smíði kjarnavopna. Í heildina fá Norður-Kóreumenn milljón tonn af eldsneyti þegar þeir hafa horfið frá kjarnorkuáætlun sinni að fullu. Bandaríkjamenn ætla að taka Norður-Kóreumenn af lista yfir ríki sem hygli hryðjuverkamönnum og ásamt Japönum taka upp stjórnmálasamband við þá.

Bandaríkjamenn eru ánægðir en varkárir í yfirlýsingum sínum. Christopher Hill, samningamaður Bandaríkjamanna í deilunni, segir augljóslega langt í land en bandarísk stjórnvöld séu ánægð með samkomulagið. Þetta sé ákveðið skref í átt að lausn deilunnar.

Stjórnmálaskýrendur segja nú komið fordæmi sem ráðamenn í Íran geti fylgt. Mahmoud Ahamdeinejad, Íransforseti, sagði í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina ABC í gær að Íranar væru andvígir útbreiðslu kjarnorkuvopna og alltaf tilbúnir til að ræða kjarnorkuáætlun sína.

George Bush, Bandaríkjaforseti, sagði í sjónvarpsviðtali í gær að hernaðaríhlutun væri síðasta úrræðið. Hann væri viss um að hægt yrði að semja um lausn á deilunni við Írana. Hann sagði írönsku þjóðina góða, heilsteypta og heiðarlega. Ráðamenn í þeirra landi séu þrasgjarnir og fari með látum um leið og þeir ógni heimsbyggðinni. Ríkisstjórin ögri umheiminum og segist vilja kjarnorkuvopn. Takmark Bandaríkjamanna sé að þrýsta áfram á hana og vona um leið að skynsamt fólk taki til sinna ráða um leið og það átti sig á því að þetta sé ekki þess virði - einangrunin frá alþjóðasamfélaginu sé ekki þess virði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×