Innlent

Yfirheyrslum enn ólokið

Nú er ljóst yfirheyrslum yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, lýkur ekki á morgun eins og til stóð. Saksóknari á enn eftir að spyrja út í nokkra ákæruliði og segist þurfa lengri tíma. Eftir hádegi í dag var þriðji kafli ákærunnar til umfjöllunar, nánar tiltekið ákæruliðir 10 til 13. Þeir snúa að meintum bókhaldsbrotum Jóns Ásgeirs og að hluta til Tryggva Jónssonar, fyrrum aðstoðarforstjóra Baugs.

Sigurður Tómas Magnússon, saksóknari í málinu, sakaði þá um að „fegra afkomu Baugs" með tekjufærslum í bókhaldi, á þeim tíma þegar fyrirtækið var almennt hlutafélag.

Nokkuð upphlaup varð þegar fjallað varð um 11. ákærulið en þá sakaði Jón Ásgeir saksóknara um að skilja ekki hugtakið EBIDTA. Vísaði Jón Ásgeir til ákæruskjals þar sem fram kæmi að EBIDTA væri hagnaður fyrir skatta og afskriftir. Jón Ásgeir sagði saksóknara sleppa fjármagnstekjum og því væru allar tölur vitlausar. Þessu neitaði saksóknari og sagði engan ágreining um hugtakið EBIDTA enda um fræðilegt hugtak að ræða sem getið væri í málsskjölum. Dómari skakkaði þá leikinn og benti á að ef ákæran væri röng að einhverju leyti tæki dómurinn á því.

Yfirheyrslum dagsins er enn ólokið en reiknað er með að saksóknari ljúki yfirheyrslum á 13. lið ákærunnar í dag. Yfirheyrslan yfir Jóni Ásgeiri heldur síðan áfram klukkan níu í fyrramálið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×