Erlent

Correa fær að halda stjórnarskrárþing

Rafael Correa, forseti Ekvador.
Rafael Correa, forseti Ekvador. MYND/AP

Forseti Ekvador, Rafael Correa, vann í dag mikinn sigur á andstæðingum sínum í þinginu. Þingið samþykkti loks beiðni hans um að fá leyfi til þess að endurskrifa stjórnarskrá landsins. Þingið hafði ávallt verið á móti þeim hugmyndum Correa en hann hefur ekki eiginlegan þingflokk á bak við sig. Hann biðlaði þess í stað til almennings sem mótmæli afstöðu þingmanna og í dag samþykkti þingið loks tillögu Correa.

Hann hefur lofað að endurskipuleggja skuldir landsins og að endurskoða samning um herstöð Bandaríkjamanna í Ekvador. Correa hefur einnig vingast við vinstrisinnan Hugo Chavez, Bandaríkjamönnum til mikils ama.

Stjórnarskrárþingið sem Correa fékk leyfi til þess að halda verður samsett af fulltrúum almennings og þingmanna. Samskonar þing var haldið þegar Chavez komst til valda í Venesúela. Stjórnarskrárþingið í Bólivíu hefur staðið yfir í lengri tíma vegna ósættis. Því segja stjórnmálaskýrendur að óvíst sé hvaða áhrif þingið muni hafa í Ekvador. Þrír fjórðu landsmanna styðja tillögur Correa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×