Erlent

Olíufyrirtæki borgar 13,5 milljarða í skaðabætur

Hollenska olíufyrirtækið Trafigura náði í dag samkomulagi um að borga stjórnvöldum í Fílabeinsströndinni 198 milljónir dollara, eða um 13,5 milljarða íslenskra króna, vegna mengunar sem fyrirtækið varð valdur að. Þúsundir veiktust vegna mengunarinnar. Fyrirtækið sendi skip þangað til þess að losa úrgang og reyndist hann vera eitraður.

Peningarnir sem stjórnvöld fá í bætur verða notaðir til þess að bæta stjórnvöldum upp þann fjárhagslega skaða sem þau urðu fyrir vegna atviksins. Einnig á að nota hann til þess að borga fyrir læknismeðferð þeirra sem enn eru veikir.

Eitraða úrganginum var komið fyrir á ruslahaugum víðs vegar um höfuðborgina Abidjan í ágúst á síðasta ári. Að minnsta kosti tíu manns létust eftir að hafa andað að sér eiturgufum úrgangsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×