Erlent

Vilja banna hjónabönd samkynhneigðra í Nígeríu

Fólk gengur fram hjá skilti með mynd af forsetaframbjóðendum í Nígeríu en kosningar fara fram þar í Apríl næstkomandi.
Fólk gengur fram hjá skilti með mynd af forsetaframbjóðendum í Nígeríu en kosningar fara fram þar í Apríl næstkomandi. MYND/AP
Stjórnmálamenn í Nígeríu lögðu í dag fram frumvarp um að banna hjónabönd samkynhneigðra. Frumvarpið féll í góðan jarðveg þó svo fámennur hópur hefði talað fyrir réttindum samkynhneigðra. Samkynhneigð er þegar ólögleg í Nígeríu en frumvarpið myndi tryggja að þeir gætu ekki gift sig. Frumvarpið er tilkomið vegna lögleiðinga hjónabanda samkynhneigðra í vestrænum löndum undanfarið.

Jonathan Adamu, þingmaður kristinna lögfræðinga í Nígeríu, sagði á málfundi þar sem tillagan var kynnt í dag „Ef við leyfum manni að vera með manni eða konu að vera með konu, verður það næst maður með dýri." Nígería skiptist í kristinn suðurhluta og múslímskan norðurhluta og er strangtrúað fólk í meirihluta. Báðir trúarhópar fordæma samkynhneigð.

Sumir mæltu þó á móti lögunum og bentu á að lögin ættu að þjóna fólkinu, ekki kúga það. Frumvarpið hefur þegar farið í tvær umræður í nígeríska þinginu og nú var verið að leita álits almennings. Eftir það fær sérstök nefnd málið í hendur sem skrifar lokafrumvarp sem fer í atkvæðagreiðslu á þinginu. Hún verður eftir nokkrar vikur.

Frumvarpið mun einnig banna skemmtistaði fyrir samkynhneigða sem og atburði á þeirra vegum, eins og GayPride skrúðgönguna vinsælu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×