Innlent

Ferjuhöfn á Bakka og ný Vestmannaeyjaferja á næstu 3 árum

Ríkið hyggst verja fimm milljörðum króna á næstu þremur árum til ferjuhafnar í Bakkafjöru og til smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju, samkvæmt stefnumörkun samgönguáætlunar. Hafnargerðin á að hefjast á næsta ári og ljúka árið 2010. Guðjón Hjörleifsson, alþingismaður, spáir því að þessar framkvæmdir leiði til sameiningar Rangárþings og Eyja.

Á fjárlögum þessa árs eru þegar tvöhundruð milljónir króna til undirbúnings ferjuhafnar í Bakkafjöru en áætlað er að gerð hafnarinnar taki tvö til tvö og hálft ár. Hafnargerðin er talin kosta 3,3 milljarða króna. Byggðir verða tveir 600 m langir brimvarnargarðar út frá Bakkafjöru, grafið verður út skipalægi innan garðanna og byggður þar 65 m langur viðlegukantur ásamt ekjubrú. Í verkinu felst einnig að byggðir verða upp fyrirstöðugarðar meðfram Markarfljóti og sjóvarnargarðar frá ósum Markarfljóts að ferjuhöfninni. Einnig er innifalin í verkinu gerð rúmlega 3 km vegar frá Bakkaflugvelli að ferjuhöfninni. Jafnhliða verður smíðuð ný Vestmannaeyjaferja, sem áætlað er að kosti 1,6 milljarða króna. Miðað er við að hún verði um 60 m löng, geti flutt 250 farþega og um 50 bíla. Siglingatími ferjunnar verður um 35 mínútur milli lands og Eyja og er stefnt að allt að sex ferðum á dag. Guðjón Hjörleifsson alþingismaður og fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum telur að almenn sátt verði um þessa frambúðarlausn í samgöngumálum Eyjamanna. Guðjón telur að þessi lausn muni ekki síður styrkja Rangárþing og íbúar þar eigi eftir að sækja þjónustu til Eyja, svo sem heilsugæslu og skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×