Erlent

Tyrkir dæma um fornleifauppgröft í Jerúsalem

Bókstafstrúargyðingar skoða brúarstæðið.
Bókstafstrúargyðingar skoða brúarstæðið. MYND/AP

Forseti Tyrklands sagði í dag að Tyrkir myndu senda hóp sérfræðinga til Jerúsalem, til þess að skoða fornleifavinnu í grennd við Al Aksa moskuna, sem hefur vakið mótmæli múslima um allan heim. Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, segir að tyrknesku sérfræðingarnir verði boðnir velkomnir.

Ísraelar eru að endurnýja gamla göngubrú úr tré, upp á Musterishæðina, sem er heilög bæði múslimum, gyðingum og kristnum mönnum. Í tengslum við þá vinnu var ákveðið að grafa fornleifagröft undir brúarstæðinu, til þess að gá hvort þar væri eitthvað merkilegt að finna. Ísraelar segja að sjá gröftur ógni helgistöðunum á engan hátt, en múslimar eru tortryggnir.

Tyrkland er eitt fárra múslimaríkja sem er í góðu sambandi við bæði Ísraela og Palestínumenn, og Ehud Olmert er þar í heimsókn. Hann segir að hann hafi sýnt Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, myndir af svæðinu en Erdogan hafi sagt að hann þekkti ekki til þar. Því hefði verið ákveðið að tyrkneskir sérfræiðingar færu á staðinn. Olmert kvaðst vona að með því muni deilum um göngubrúna ljúka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×