Innlent

"Blaut tuska," segir Dagur um samgönguáætlun

Umferð á Kringlumýrarbraut. Dagur er ekki ánægður með samgönguáætlun.
Umferð á Kringlumýrarbraut. Dagur er ekki ánægður með samgönguáætlun.

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi segir að samgönguáætlun sé eins og "blaut tuska framan í borgarstjóra." Hann segir á heimasíðu sinni í dag að enn þurfi að búa við óviðunandi óvissu um fjármögnun Sundabrautar því einkafjármögnun fyrir á annan tug milljarða sé óútfærð og ávísað á framtíðina.

"Vegagerð og samgönguráðherra halda leiðarvali enn í uppnámi með því að útiloka ekki 'innri leið' þótt Reykjavíkurborg og aðrir hagsmunaaðilar líti allir á jarðgöng frá Gufunesi í Laugarnes sem fyrsta kost," segir Dagur.

Dagur segir einnig að helstu skipulagsáform nýs meirihluta í Reykjavík, mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, séu í uppnámi því þau séu aðeins fjármögnuð að hálfu á fjögurra ára áætlun og tengdar framkvæmdir upp á allt að 10 milljarða sé hvergi að finna í samgönguáætlun.

Þá bendir Dagur á að uppbygging hafnarsvæða við Mýrargötu og í Örfirsey sé í óvissu því fyrstu hlutar hverfanna eigi að vera fullbyggðir 2010 en Mýrargötustokkur sé ekki á samgönguáætlun fyrr en 2011 - 2014. Þá sé einungis áætlað fé til undirbúnings Öskjuhlíðarganga undir lok samgönguáætlunar, sem er til 2018, en á sama tíma eigi að ráðast í sex ný jarðgöng annars staðar.

Dagur boðar á heimasíðu sinni að Samfylkingin muni leggja fram fyrirspurn í borgarráði um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×