Innlent

Sýknaði ríkið af skaðabótakröfu Karls K. Karlssonar

MYND/GVA
Hæstiréttur sýknaði í dag íslenska ríkið af skaðabótakröfu Karls K. Karlssonar. Hann taldi sig hafa beðið skaða vegna þess að íslenska ríkið hélt einkarétti til innflutnings og heildsöludreifingar á áfengi eftir gildistöku EES-samningsins 1. janúar 1994.

Karl K. Karlsson byggði kröfu sína á því að samkvæmt skilmálum EES-samningsins hefði ríkið átt að gefa einkarétt sinn eftir 1. janúar 1994 en gerði það ekki fyrr en 23 mánuðum seinna. Sóttist fyrirtækið eftir skaðabótum fyrir það tímabil.

Dómstóllinn hafnaði því á þeim grunni að fyrirtækið hefði ekki sýnt fram á tjón sitt af því að hafa ekki stundað innflutning og heildsöludreifingu á tímabilinu. Einnig taldi dómurinn að ekki hefði verið sýnt fram á orsakasamband milli slíks hugsanlegs tjóns og saknæmrar háttsemi.

Þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi verið sýknað af kröfum stefnanda var það dæmt til þess að greiða honum 3,5 milljónir króna í málskostnað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×