Erlent

Verða að kunna skil á bandarískum gildum

MYND/Vísir

Nýtt próf verður nú lagt fyrir fólk sem ætlar sér að verða bandarískir ríkisborgarar. Það þarf að svara spurningum um bandarísk gildi og hugtök. Spurt verður um lýðræði, trúfrelsi, réttindi minnihlutahópa og af hverju ríkisvaldið í Bandaríkjunum er þrískipt. Gamla prófið sem innflytjendur áttu að taka snerist meira um dagsetningar og nöfn, einfaldar staðreyndir sem auðvelt var að leggja á minnið.

Nýja prófið að á að mæla betur hvort að fólk geti orðið sannir Bandaríkjamenn. Prófið verður þrískipt. Einn hlutinn fjallar um hugtökin áðurnefndu, annar er lestrarpróf og sá þriðji er skriftarpróf. Á síðasta ári fengu 700.000 manns ríkisborgararétt með því að taka prófið.

Á Íslandi er sem stendur ekkert próf til þess að verða íslenskur ríkisborgari. Frumvarp þess efnis verður hins vegar brátt lagt fram á alþingi. Ekki er hins vegar sagt í frumvarpinu hvers verður krafist en líklegt er að dómsmálaráðherra muni útfæra það nánar með reglugerð þegar þar að kemur. Fólk sem kemur utan EES verður hins vegar að standast íslenskupróf eða sýna fram á 150 stundir af íslenskunámi til þess að fá búsetuleyfi hér á landi. Engin krafa er þó gerð um að hafa lært um íslensk gildi.

Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahússins, sagði í samtali við Vísi að ekki færi fram sérstök kennsla í íslenskum gildum og menningu. Þess í stað reyndu þeir að flétta inn kennslu um þjóðfélagið sjálft í íslenskutímunum. „Íslenska menningu og gildi reynum við að flétta inn í kennsluna til þess að gera hana áhugaverðari. Það er tæplega hægt að læra tungumálið án þess að læra um menninguna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×