Erlent

Vilja aðgerðir í loftslagsmálum

MYND/AP
Leiðtogar ríkja heims eru einhuga um að ná þurfi samkomulagi hið fyrsta um viðbrögð við loftslagsbreytingum. Þetta var niðurstaða fundar sem haldinn var í borginni Washington í Bandaríkjunum og lauk í gær. Lagt var til að þróunarlönd ættu einnig að takmarka útblástur skaðlegra efna rétt eins og ríkari lönd. Í lokayfirlýsingu fundarins var tekið fram að ekki væri lengur hægt að draga í efa áhrif mannsins á loftslagsbreytingar.

Fundurinn stóð yfir í tvo daga. Hann sóttu fulltrúar átta ríkustu ríkja heims ásamt fulltrúum Brasilíu, Kína, Indlands, Mexíkó og Suður-Afríku.

Ákveðið var að vinna að því að setja upp alheimsmarkað fyrir koltvísýring. Á honum væri síðan hámarksmengunarkvóti og gætu lönd keypt og selt kvóta eftir þörfum. Niðurstöður fundarins, sem var óformlegur, eru ekki bindandi. Þær eru engu að síður taldar mikilvægar þar sem þær gætu myndað grundvöll að samkomulagi sem gæti komið í stað Kyoto-samkomulagsins en það rennur út árið 2012. Ákveðið var að stefna að því að arftaki Kyoto-samkomulagsins yrði tilbúinn ekki síðar en árið 2009.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×