Erlent

Fiskur á meðgöngu meinhollur

Fiskneysla á meðgöngu gerir börnin bæði gáfaðri og betri í samskiptum þegar þau vaxa úr grasi. Þetta er niðurstaða könnunar sem birtist í breska læknatímaritinu Lancet í dag.

Það hefur lengi verið vitað að fiskur er með því hollasta sem börn fá að borða. Því valda ómega-3 fitusýrur sem eru bæði góðar fyrir hjarta og æðar en einnig fyrir heilastarfsemina. Könnunin sem breskir og bandarískir vísindamenn gerðu á matarræði 11.875 ófrískra kvenna og sagt er frá í Lancet sýnir hins vegar hversu mikilvægt gott matarræði getur verið fyrir börn á meðan þau eru ennþá í móðurkviði. Auk þess að kanna matarræðið mældu þeir greind barnanna upp að átta ára aldri og skoðuðu hvernig þeim reiddi af í samskiptum við annað fólk. Menntun og efnahagur foreldranna voru einnig tekin með í reikninginn.

Niðurstaða vísindamannanna er skýr. Feitur fiskur á borð við lax einu sinni til tvisvar í viku á meðgöngu eykur líkurnar á að börnin verði gáfaðari og með betri samskiptahæfileika en ella þegar þau vaxa úr grasi.

Að sama skapi getur lítil fiskneysla haft þveröfug áhrif, konur sem borðuðu innan við 300 grömm af fiskmeti á viku á meðgöngunni voru næstum helmingi líklegri til að eignast börn með takmarkaðan málþroska. Vísindamennirnir ítrekuðu þó að allt væri gott í hófi, tegundir á borð við hákarl og túnfisk geta í of miklum mæli reynst skaðlegar vegna kvikasilfursmengunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×