Erlent

Enn logar í japanska hvalskipinu

Óttast er að umhverfisslys geti verið í uppsiglingu í Suður-Íshafinu eftir að eldur kom upp í japönsku hvalveiðiskipi þar í gær. Hafsvæðið er eitt hið tærasta í heiminum og þar eru einnig varpstöðvar mörgæsa. Þrátt fyrir að ekki hafi tekist að koma böndum á eldinn hafa skipverjar ekki viljað þiggja hjálp frá umhverfisverndarsinnum á svæðinu.

Nisshin Maru er flaggskip japanska hvalveiðiflotans en það hefur verið að veiðum í Ross-hafi, rétt við Suðurskautslandið. Skipið hefur hins vegar lítinn frið fengið til veiðanna fyrir umhverfisverndarsinnum. Í gær kom upp eldur í því af ókunnum orsökum og hefur enn ekki tekist að slökkva hann. Japönsk stjórnvöld eru ekki í vafa um hverjir eiga sök á ástandinu. Þau segja Sea Sheperd-samtökin hafa með aðgerðum sínum skapað þvílíkt ástand að eldur kviknaði og í eldsvoðanum lést einn skipverjanna.

Esperanza, skip Greenpeace-samtakanna, var fyrst á vettvang enda hefur það reynt undanfarna daga að spilla fyrir veiðunum. Þegar eldurinn kom upp bauðst áhöfn þess hins vegar þegar í stað til að aðstoða skipverjana við að slökkva á eldinn en sú hjálp var ekki þegin. Ross-haf er eitt hið tærasta í heimi og þar eru jafnfram heimkynni ýmissa viðkvæmra dýrategunda á borð við mörgæsir og seli. Um borð í Nisshin Maru eru 500 tonn af svartolíu og 800 tonn af gasolíu og því er óttast að mikið umhverfisslys geti orðið komi leki að skipinu. Enda þótt Japanarnir fullyrði að engin olía hafi lekið í sjóinn skoruðu nýsjálensk stjórnvöld á þá að þiggja þá aðstoð sem þeim hefur verið boðin eigi ekki illa að fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×