Innlent

Tveir ökufantar teknir

Tveir lögreglubílar skemmdust í gærkvöldi og nótt við að elta uppi ökufanta sem keyrðu á ofsahraða til að sleppa undan lögreglu. Báðir stefndu þeir samborgurum sínum í stórhættu.

Það var rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi sem lögreglan í reykjavík handtók 22ja ára gamlan mann eftir ofsaakstur á Sæbraut og í Breiðholti. Maðurinn skapaði stórhættu og keyrði "eins og vitleysingur" að sögn lögreglu. Sex lögreglubílar veittu honum eftirför. Lögreglan reyndi að króa manninn af, m.a. með því að keyra á bíl hans. Tveir lögreglubílar eru skemmdir eftir aðgerðina. Eftirförin hófst á Kleppsvegi þegar bíllinn kom inn í radar lögreglunnar á 180 km hraða. Hann virti ekki stöðvunarmerki lögreglu og lét hvorki umferðareyjar né umferðarljós stöðva sig. Maðurinn var með tvo farþega í bílnum. Hann keyrði Sæbrautina og skapaði stórhættu í íbúðahverfi í Breiðholti með ofsaakstrinum. Síðan fór hann til baka Sæbrautina og tókst lögreglu loks að stöðva bílinn á Sæbraut við Súðarvog eftir að hafa keyrt á hann. Þremenningarnir voru fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Farþegunum var sleppt í gærkvöldi en bílstjórinn, sem er grunaður um ölvun, gisti fangageymslu. Hann verður yfirheyrður eftir hádegið. Að sögn lögreglu lætur nærri að allur umferðarlagabálkurinn eins og hann leggur sig hafi verið brotinn í þessum glæfraakstri.

Í nótt var svo annar maður um tvítugt handtekinn eftir að lögregla hafði elt hann frá Suðurlandsvegi við Hólmsá, þar sem hann virti ekki stöðvunarmerki frá lögreglu, eftir Breiðholtsbraut. Lögreglu tókst að stöðva bílinn þegar ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, missti stjórn á bíl sínum í aðrein niður á Reykjanesbraut. Þar ók lögregla á bílinn og handtók manninn sem gisti fangageymslu og verður yfirheyrður í dag.

Enginn meiddist í þessum eftirförum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×