Erlent

Hóta að sniðganga Palestínustjórn

Bandaríkjamenn og Ísraelar hafa fallist á að sniðganga nýja þjóðstjórn Palestínumanna nema stjórnin viðurkenni Ísraelríki og láti af ofbeldisverkum gegn Ísraelum. Ekkert samstarf verði á milli Ísraela og Palestínumanna ef af þessu verði ekki.

Þessu lýsti Ehud Olmert yfir í aðdraganda viðræðna milli hans og utanríkisráðherra Bandaríkjanna Condoleezzu Rice. Þau munu ræðast við í dag í Jerúsalem. Rice og Mahmoud Abbas, forseta Palestínu funda líka í dag en sameiginlegur fundur þeirra þriggja verður á morgun.

Hamas-samtökin, stærsti flokkurinn í nýsamsettri þjóðstjórn Palestínu, hafa neitað með öllu að viðurkenna Ísraelsríki. Forsætisráðherra Ísraels, sagði ennfremur að palestínsk stjórnvöld sem gangi ekki að skilyrðum Bandaríkjamanna, Evrópusambandsins og Rússlands geti ekki öðlast alþjóðlega viðurkenningu.

Evrópusambandið, Bandaríkin og Rússland hafa beitt Palestínu efnahagslegum þvingunum frá því að Hamas-samtökin unnu lýðræðilegar kosningar í fyrra.

Olmert sagði að hann og George Bush, forseti Bandaríkjanna hefðu komist að þessari niðurstöðu á föstudag og verið algjörlega samstíga í ákvörðun sinni.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna dró þó úr ummælum Olmert og sagði Bandaríkjamenn vilja bíða eftir að stefnu hinnar nýmynduðu þjóðstjórnar, áður en ákvarðanir af þessu tagi yrðu teknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×