Erlent

Engin áþreifanleg niðurstaða

Engin áþreifanleg niðurstaða fékkst eftir fund leiðtoga Ísraels og Palestínumanna með Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Jerúsalem í morgun. Rice segir viðræðum verða haldið áfram. Markmið fundarins var að koma friðarviðræðunum fyrir botni Miðjarðarhafs aftur af stað.

Þetta var í fyrsta sinn sem Rice fundaði á sama tíma með þeim Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna. Öryggisgæsla í Jerúsalem var mikil. Fyrir fundin hafði Rice verið afar varfærin í yfirlýsingum sínum. Hún varaði við of miklum væntingum til fundarins og sagði þetta tilraun til að koma friðarferlinu í gang á ný.

Hún hafði áður fundað með Abbas í Ramallah á Vesturbakkanum í gær þar sem skipan nýrrar þjóðstjórnar Hamas- og Fatah-liða var helsta umræðuefnið. Fulltrúar samtakanna hafa nú fimm vikur til að skipa í embætti og leita samþykkis þings þar sem Hamas-liðar eru í meirihluta. Rice hitti einnig Olmert í Jerúsalem í gær. Þar kom fram að Ísraelar ætluðu ekki að viðurkenna þjóðstjórn Palestínumanna ef þeir ætluðu ekki að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis.

Fyrir fundinn í morgun vildi Rice ekkert gefa upp um hvað yrði rætt og sagði einnig ólíklegt að það yrði gert eftir fundinn. Honum lauk á ellefta tímanum. Ekki var boðað til sameiginlegs blaðamannafundar en Rice ræddi þó við fréttamenn. Hún sagði Olmert og Abbas hafa lýst yfir vilja til frekari friðarviðræðna og tekið vel í mögleikann á tveggja ríkja lausn á deilum Ísraela og Palestínumanna. Rice sagði að leiðtogarnir myndu funda á ný innan tíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×