Erlent

Bakkavör innkallar hummus

Bakkavör hefur innkallað kjúklingabaunamauk úr sex matvöruverslanakeðjum á Bretlandi eftir að salmonellusmit greindist í sýnum úr því. Ekki er talið að nokkur hafi veikst eftir að hafa neytt vörunnar og segir forstjóri fyrirtækisins fjárhagstjón vegna smitsins óverulegt.

Salmonellan fannst við reglubundið eftirlit síðastliðinn fimmtudag þegar sýni voru tekin úr tveimur tegundum kjúklingabaunamauks, eða hummus, sem Bakkavör framleiðir í einni af verksmiðjum sínum fyrir Marks og Spencer-keðjuna. Allt hummus frá Bakkavör var í kjölfarið tekið búðum Marks og Spencer og þar sem samskonar vörur eru búnar til fyrir fimm aðrar keðjur í Bretlandi og á Írlandi, Tesco, Somerfield, Waitrose, Co-op og Sainsbury's, var einnig ákveðið að kalla inn stóran hluta þess hummus þaðan. Ítarleg rannsókn um helgina leiddi í ljós að salmonellan kom úr hráefni sem notað er við vinnsluna. Að sögn Ágústs Guðmundssonar, forstjóra Bakkavarar er talið að þar með sé búið að koma í veg fyrir frekara smit. Engar kvartanir hafa borist fyrirtækinu frá neytendum vegna hummusins og innköllunin er fyrst og fremst í varúðarskyni. Bakkavör hefur ekki viljað gefa upp hversu marga skammta af vörunni fyrirtækið varð að innkalla en breskir fjölmiðlar telja að þeir hlaupi á tugum þúsunda. Engu að síður segir Ágúst fjárhagstjónið vegna þessa óverulegt og hann segir keðjurnar engin áform hafa um að hætta viðskipum við Bakkavör enda komi slík smit af og til upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×